Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 114  —  114. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skráningu foreldratengsla.


Flm.: Jódís Skúladóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Orri Páll Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja reglugerð á grundvelli ákvæðis 6. mgr. 7. gr. barnalaga, nr. 76/2003, um form og framkvæmd skráningar barns í þjóðskrá, með það að markmiði að afnema mismunun í skráningu foreldratengsla.

Greinargerð.

    Á 153. löggjafarþingi lagði flutningsmaður þessarar tillögu fram fyrirspurn (þskj. 1136, 747. mál) til innviðaráðherra um jafnræði í skráningu foreldratengsla. Var sú fyrirspurn liður í eftirfylgni með þingsályktun nr. 21/146 um jafnræði í skráningu foreldratengsla sem samþykkt var á Alþingi á 146. löggjafarþingi en kom ekki til framkvæmda. Í svari innviðaráðherra (þskj. 1360, 747. mál) kemur fram að verklag Þjóðskrár sé ekki í samræmi við nefnda þingsályktun þar sem stofnunin sé bundin við ákvæði barnalaga, nr. 76/2003, þ.m.t. sérreglu 6. gr. um tæknifrjóvgun. Þá er í svari innviðaráðherra áréttað að framkvæmd Þjóðskrár eigi einungis við um upplýsingaöflun vegna skráningar foreldris barnsins en ekki upplýsingar um samþykki fyrir tæknifrjóvguninni.
    Líkt og fram kemur í greinargerð með tillögu til fyrrnefndrar þingsályktunar er mæðrum í samkynja hjúskap eða skráðri sambúð gert að afhenda Þjóðskrá yfirlýsingu um að barn þeirra sé getið með tæknifrjóvgun, ella verði sú kona ein skráð foreldri sem ól barnið. Sama krafa er ekki gerð til gagnkynhneigðs fólks í hjúskap eða skráðri sambúð sem hefur eignast barn með aðstoð tæknifrjóvgunar þar sem faðernisreglan eða skyldar reglur gilda ekki um skráningu foreldratengsla þess barns sem tvær mæður eignast saman. Enn er fólki mismunað að þessu leyti á grundvelli kynferðis og kynhneigðar þrátt fyrir samþykkt þingsályktunarinnar um jafnræði í skráningu foreldratengsla og er sú staða tilefni framlagningar þessarar tillögu.
    Faðernisreglan ( pater est-reglan) var lögfest með barnalögum, nr. 9/1981, sbr. 3. gr. þeirra laga, og voru þar gerðar veigamiklar breytingar á gildissviði reglunnar. Reglan er grundvöllur að ákvörðun faðernis barna foreldra sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð. Reglan vísar almennt til þess að löglíkur séu fyrir faðerni barns þegar móðir er í hjúskap eða skráðri sambúð. Með frumvarpi til breytinga á barnalögum, sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi (sbr. lög nr. 49/2021), var lögð til ný regla, parens est-reglan. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að hún gildi um ákvörðun foreldrastöðu foreldris sem breytt hefur skráningu kyns og er í hjúskap eða í skráðri sambúð með foreldrinu sem ól barnið. Hún á einungis við ef upphafleg kynskráning foreldris útilokar ekki líffræðileg tengsl við barnið. Reglan getur því ekki átt við í hjónaböndum eða sambúð einstaklinga sem höfðu upphaflega sömu kynskráningu.
    Með lögum nr. 49/2021 var kveðið á um skyldu móður til að feðra barn sitt þegar feðrunarreglur 2. og 6. gr. barnalaga eiga ekki við. Í áðurnefndri greinargerð segir að lagðar séu til grundvallarbreytingar á merkingu hugtakanna móðir og faðir sem ekki endurspegli uppruna kynfrumna eða líffræðilegan uppruna barns með sama hætti og í þágildandi lögum. Þá segir um 5. gr. frumvarpsins: „Þessi breyting hefur það í för með sér að konur í hjúskap eða skráðri sambúð sem eignast saman barn sem getið er við tæknifrjóvgun teljast báðar mæður þess.“ Þrátt fyrir að teljast báðar mæður barns þurfa mæður í samkynja hjúskap eða skráðri sambúð að afhenda Þjóðskrá Íslands yfirlýsingu um að barn þeirra sé getið með tæknifrjóvgun. Eins og áður hefur komið fram er ekki gerð sama krafa til gagnkynhneigðs pars sem eignast barn með aðstoð tæknifrjóvgunar þar sem foreldraskráning í þeim tilvikum byggist á pater est-reglu barnalaga. Sú regla virðist því ganga framar ákvæði 3. mgr. 6. gr. barnalaga sem er efnislega samhljóða 2. mgr. 6. gr. og kveður á um að maður sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni teljist faðir barns sem þannig er getið. Í framkvæmd fer því ekki fram könnun og þar með staðfesting á því að barn hafi verið getið með tæknifrjóvgun ef um er að ræða gagnkynhneigt par í hjúskap eða sambúð. Benda má á að réttur barna til að þekkja uppruna sinn er þar með ekki tryggður í þeim tilvikum.
    Það er mat flutningsmanna að vilji löggjafans endurspeglist í samþykkt þingsályktunar um jafnræði í skráningu foreldratengsla sem samþykkt var á Alþingi á 146. löggjafarþingi. Með því ályktaði Alþingi að fela ráðherra að setja reglugerð þar sem tryggt yrði að jafnræði ríkti með foreldrum barna með tilliti til foreldraskráningar, en reglugerðin hefur ekki enn verið sett. Þá hefur ráðherra ekki sett reglugerð á grundvelli 6. mgr. 7. gr. barnalaga um form og framkvæmd skráningar barns í þjóðskrá sem og 6. gr. og 6. gr. a, þ.m.t. um gögn til staðfestingar á fæðingu barns, tæknifrjóvgun hér á landi og erlendis og um foreldri barns og upplýsingagjöf. Flutningsmenn árétta að ekki er um heimild ráðherra til setningar reglugerðar að ræða heldur er ráðherra með ákvæðinu falið að setja slíka reglugerð. Líkt og fram kemur í greinargerð með áðurnefndum lögum nr. 49/2021 er með setningu slíkrar reglugerðar hægt að taka til skoðunar hvernig haga megi skráningu á sem aðgengilegastan hátt með hliðsjón af gildandi lögum. Flutningsmenn telja afar brýnt að reglugerðin verði sett hið fyrsta og ákvæði hennar útfærð á þann veg að sú mismunun í framkvæmd á skráningu foreldratengsla sem nú viðgengst verði afnumin.